Forseti Gíneu-Bissau ómeiddur

Staðfest hefur verið að forseti Gíneu-Bissau, Joao Bernardo Vieira, er heill á húfi eftir árás vopnaðra manna á forsetahöllina í nótt.  Valdaránstilraunin var stöðvuð af öryggisveitum, en að minnsta kosti einn varða forsetans lést og margir særðust. Uppreisnarmennirnir náðu hinsvegar ekki að komast að herberginu þar sem forsetinn var í felum.

Innanríkisráðherra Gíneu-Bissau segir við AP fjölmiðlaveituna að það sé með öllu óásættanlegt að önnur valdaránstilraun hafi verið framin í landinu. Ríkisstjórnin hefur ekki sent frá sér formlega tilkynningu en hefur kallað til neyðarfundar síðar í dag.

Formaður sambands Afríkuríkja sagði í yfirlýsingu að sambandið hafni hverskonar breytingu á ríkisstjórn sem ekki er í samræmi við stjórnarskrá og fordæmi hvers konar tilraunir til að ná völdum með afli.

Gínea-Bissau, sem eitt sinn var portúgölsk nýlenda, á sér langa sögu valdarána og misbeitingar valds. Þar á meðal náði forsetinn sjálfur völdum upphaflega með valdaráni árið 1980, en hefur verið endurkjörinn í kosningum síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert