Leiðtogar Asíu- og Kyrrahafsríkja hafa heitið því að bregðast ekki við alþjóðlegri fjármálakreppu með því að auka á viðskiptahöft á árinu 2009. Í yfirlýsingu sem leiðtogarnir skrifuðu undir á fundi ríkjanna í Perú í nótt segir að beiting verndartollastefnu yrði aðeins til þess að gera illt verra.
Yfirlýsingin er runnin undan rifjum George W. Bush, fráfarandi Bandaríkjaforseta, sem hvatti við þetta tækifæri APEC löndin, til að reiða sig á frjálsa markaði til að leysa úr vandanum. Fundur APEC er síðasta utanlandsferðin sem er á dagskrá forsetans áður en hann lætur af embætti í janúar.
„Hættan er sú að samdráttur hagvaxtar á heimsvísu gæti leitt til þess verndaraðgerða sem myndu aðeins auka á efnahagsvandann,“ sagði í yfirlýsingu leiðtoganna. „Við styðjum tillöguna heilshugar og munum á næstu 12 mánuðum forðast að reisa nýja hindranir við fjárfestingar eða viðskipti á vörum og þjónustu.“
George Bush mun sjálfur hafa talað af ástríðu um staðfasta trú sína á frjálsum markaði þrátt fyrir efnahagsáföll heimsins. „Ein helsta lexían sem við lærðum í kreppunni miklu var sú að alþjóðlegir verndartollar leiða okkur í efnahagslegt hrun á heimsvísu.“
Bush notaði einnig tækifærið á ráðstefnunni til að funda með forseta Rússlands, Dmitry Medvedev og voru þeir sammála um nauðsyn þess að samvinna væri á milli Rússlands og Bandaríkjanna undir stjórn Barack Obama.