Búist er við að Barack Obama tilkynni í dag um skipan manna í fjármálateymi Hvíta hússins en boðað hefur verið til blaðamannafundar í dag. Teymisins bíður það erfiða hlutverk að snúa við ört hnignandi fjármálalífi landsins.
Talið er að Obama tilkynni í dag um útnefningu Timothy Geithner, bankastjóra New Yorkútibús Seðlabanka Bandaríkjanna, en einn aðalráðgjafi Obama hefur staðfest valið á Geithner. Verð hlutabréfa á Wall Street tóku kipp upp á við fyrir lokun markaða á föstudag eftir að nafn Geithners hafði verið nefnt í þessu sambandi.
Einnig er búist við að Obama tilkynni um val á Lawrence Summers, sem var fjármálaráðherra í tíð Bill Clinton, í embætti aðalfjármálaráðgjafa.
Einnig er beðið eftir tilkynningu um val á Hillary Clinton í embætti utanríkisráðherra en talið er að það verði síðar í vikunni.