Okurlánurum sagt stríð á hendur

Yfirvöld í Wales hafa sagt okurlánurum, sem beita ofbeldi og hótunum gegn skuldunautum sínum, stríð á hendur. Verið er að undirbúa ákærur á hendur tugum okurlánara sem hafa verið í rannsókn síðustu mánuði.

Sérstök aðgerðasveit var sett á stofn í fyrra til að berjast gegn okurlánurum. Sveitin hefur síðan rannsakað 35 mál. Það er þó aðeins lítið brot af þessari ólöglegu starfsemi sem þrifist hefur í Wales. Áætlað er að okurlán nemi um þremur milljónum punda á ári en skuldurum er gert að greiða allt að 12 milljónir punda til baka.

Okurlánararnir svífast einskis og undantekningalaust tvöfaldast upphæðin strax við lántöku. Skuldurum og fjölskyldum þeirra er hótað dag og nótt og einhliða eru lánakjörin ákveðin. Jafnvel þegar skuldari álítur að komið sé að lokagreiðslu, ákveður okurlánarinn að bæta enn við vöxtum.

„Við höfum sannanir fyrir beitingu ofbeldis. Fólk hefur verið lamið hrottalega, konum hefur verið nauðgað og skotvopnum hefur verið beitt.  Það eru dæmi um mann sem tók þúsund pund að láni hjá okurlánara. Honum var gert að greiða 11 þúsund pund til baka. Þetta virðist engan endi taka, okurlánarinn ræður hvort og þá hvenær hann sleppir þér,“ segir Steve Haye, einn rannsóknarmanna aðgerðarsveitarinnar.

Patrick Kiely var í september dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir okurlánastarfsemi. Hann var að sögn dómstóla einn sá illskeyttasti en dæmi voru um að hann legði 150% vexti ofan á lánin.

„Sá sem fékk 400 pund að láni hjá Kiely var skuldaði honum umsvifalaust 800 pund. Ef lántakandi stóð ekki í skilum bættust refsivextir ofan á og í mörgum tilvikum var skuldari neyddur til að taka nýtt okurlán til að gera upp hið fyrra. Þannig gat upphæðin fjórfaldast á skömmum tíma,“ segir Philip Williams, rannsóknarlögreglumaður sem rannsakaði mál Kiely's.

Reiknað er með að fyrstu mál aðgerðasveitarinnar gegn okurlánurum í Wales verði tekin fyrir í dómstólum í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert