Dómstóll í Miami á Flórída gekk í dag þvert á bann Flórídaríkis á ættleiðingum samkynhneigðra. Úrskurðaði hann að tveir samkynhneigðir karlmenn mættu ættleiða tvö börn sem þeir hafa alið upp sl. fjögur ár.
Dómarinn, Cindy Lederman, sagði: „Það er enginn rökrænn grunnur fyrir því að undanskilja samkynhneigða frá því að geta ættleitt.“
Flórída er eina ríki Bandaríkjanna sem bannar samkynhneigðum að ættleiða. Það heimilar þeim þó að vera fósturforeldrar.
Frank Martin Gill og maki hans hafa verið fósturforeldrar tveggja bræðra, fjögurra og átta ára gamalla, frá því 2004. „Þeir eru góð fjölskylda. Þeir eru fjölskylda að öllu leyti, nema frá lagalegu sjónarmiði,“ sagði Lederman.
Talsmenn Flórídaríkis hafa tilkynnt að þeir muni áfrýja úrskurðinum.