Dómstóll í Sheffield í Bretlandi hefur dæmt mann á sextugsaldri í margfalt lífstíðarfangelsi fyrir ítrekað kynferðisofbeldi gegn tveimur dætrum sínum.
Málið kom upp í júní síðastliðnum. Fyrir rétti lýsti fjölskylda mannsins því hvernig hann hélt konu sinni og börnum í heljargreipum svo árum skipti. Lýsingar af ofbeldi föðurins gegn fjölskyldumeðlimum eru óhugnanlegar, svo ekki sé meira sagt.
Ofbeldið hófst þegar stúlkurnar voru átta ára og urðu þær barnshafandi nítján sinnum eftir föður sinn. Tíu sinnum misstu stúlkurnar fóstur eða fóru í fóstureyðingu en níu börn fæddust. Tvö þeirra létust skömmu eftir fæðingu.
Maðurinn flutti ört milli þorpa og komst þannig hjá afskiptum yfirvalda svo árum skiptir.
Maðurinn játaði á sig 25 nauðganir og nokkur tilfelli annars konar ofbeldis.
Alan Goldsack, dómari sagðist hafa 40 ára reynslu í meðferð sakamála en hann hefði aldrei á þeim tíma komist í kynni við annan eins hrottaskap. Goldsack dæmdi manninn í lífstíðarfangelsi fyrir hverja hinna 25 nauðgana sem maðurinn játaði á sig.
Faðirinn neitaði að vera viðstaddur dómsuppkvaðninguna.
Stúlkurnar sögðu eftir að dómur hafði verið kveðinn upp að nú væri það eitt öruggt að hann gæti ekki snert þær framar. „Þjáningarnar sem hann olli munu fylgja okkur í langan tíma en nú verðum við að einbeita okkur að því að reisa líf okkar úr rústum.“