„Aap“ við aukinni sjálfstjórn

Afgerandi niðurstöður fengust úr kosningunum á Grænlandi í gær en þar var kosið um aukna sjálfstjórn Grænlendinga. 75,54% kjósenda reyndust styðja tillöguna eftir að meirihluti atkvæða hafði verið talinn. 23,57% voru andsnúnir aukinni sjálfstjórn, þetta kemur fram á vef Politiken.

Kosningaþátttaka var góð en rétt rúmlega 70% landsmanna greiddu atkvæði. Tillagan um aukna sjálfstjórn gerir ráð fyrir að landsmenn fái meiri yfirráð yfir auðlindum landsins, dómsmálum og að hluta yfir utanríkismálum. Þá verði grænlenska viðurkennd sem opinbert mál.  

Litið er á tillöguna sem skref í átt til fullveldis Grænlendinga þó efasemdaraddir heyrist um að grænlenskt samfélag sé tilbúið að slíta alveg efnahagslegu sambandi við Danmörku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert