Utanríkiráðherra Bretlands, David Miliband fordæmdi í dag árásirnar í Bombay, sem orðið hafa 80 manns að bana. Bandaríkjamenn hafa líka lýst yfir fordæmingu á þeim og segjast stjórnvöld þar í landi fylgjast vel með framvindu mála.
„Árásirnar í Bombay hafa kostað marga saklausa einstaklinga lífið. Þær minna okkur enn og aftur á ógnina sem okkur stafar af ofbeldisfullum öfgamönnum,“ sagði Miliband. „Ég fordæmi þessar árásir án alls fyrirvara.“
Fréttastofan The Press Trust of India segir allt að 200 manns hafa særst í samræmdum árásum þar sem að menn vopnaðir vélbyssum og handsprengjum réðust á lúxushótel og aðaljárnbrautarstöð borgarinnar.
Þá er fullyrt, að vestrænir ferðamenn hafi verið teknir í gíslingu á hóteli í borginni. Eru gíslarnir sagðir vera bæði Bretar og Bandaríkjamenn.