Þýskur Obama?

Yes we Cem! Var slagorð stuðningsmanna Özdemir í baráttunni um …
Yes we Cem! Var slagorð stuðningsmanna Özdemir í baráttunni um leiðtogahlutverkið

Cem Özdemir hefur verið lýst sem Obama Þýskalands. Hann er ungur tyrkneskur stjórnmálamaður sem nýlega tók við leiðtogaembætti hjá Græningjaflokknum ásamt Claudiu Roth. Hann er fyrsti flokksleiðtogi Þýskalands af tyrkneskum uppruna.

Özdemir segist vera veraldlegur múslimi sem ekki slái hendinni á móti stöku vodkaglasi. Hann er fæddur í Þýskalandi en foreldrar hans komu til Baden-Württemberg í suðurhluta Þýskalands sem Gastarbeiter og urðu eftir í landinu eins og milljónir annarra Tyrkja. Tyrkir eru stærsti innflytjendahópurinn í Þýskalandi og telja 2,7 milljónir.

Özdemir sagði af sér þingmennsku árið 2002 eftir að upp komst að hann hafði notað flugpunkta úr opinberum ferðum til að fjármagana ferðir á eigin vegum. Einnig komst hann í hann krappann vegna launagreiðslna þar sem hann hafði ekki áttað sig á því að þýskir þingmenn fá greidd laun og þurfa að sjá um að greiða skatta af þeim sjálfir. Hann hafði því gefið stóran hluta launa sinna til velferðarmála og neyddist til að bjarga skattauppgjörinu með lántökum. Lánið fékk hann hjá þekktum vopnasölumanni og þótti sá gjörningur allur hinn óheppilegasti.

Özdemir hefur þó náð að afla sér trausts á ný og eru miklar vonir bundnar við hann meðal græningja og er talið að hann og Claudia Roth muni blása nýju lífi í flokkinn sem þykir hafa dalað nokkuð frá því að hann fór í stjórnarandstöðu árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert