Barack Obama, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar, hefur valið Paul Volcker, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna, til að stýra nýrri ráðgjafarnefnd sem á að finna leiðir til að fjölga störfum og koma á fjármálastöðugleika á ný. Obama segir að hann muni leggja fram fullmótaða efnahagsáætlun um leið og hann tekur við embætti.
Volcker, sem er 81 árs, mun stýra efnahagsnefnd væntanlegs forseta en Austan Goolsbee, hagfræðingur hjá Chicagoháskóla, verður starfsmaður nefndarinnar.
Volcker stýrði bandaríska seðlabankanum frá árinu 1979 til 1987. Hann lét hækka stýrivexti bankans til að berjast gegn verðbólgu og í kjölfarið kom samdráttarskeið. Aðgerðir Volckers voru þó, áður en yfir lauk, taldar hafa stuðlað að endurreisn hagkerfisins þar sem það tókst að koma böndum á verðbólguna.
Volcker hefur um árabil komið til Íslands í laxveiðar, síðast fyrir tveimur árum þegar hann veiddi í Fljótaá.