Indverskir sérsveitarmenn björguðu fyrir stundu 39 gíslum sem haldið var föngnum á Oberoi/Trident-hótelinu í Mumbai. Hluti gíslanna eru útlendingar.
Alls hafa 125 fallið í árásum ódæðismanna úr röðum íslamista í borginni og berast böndin að öfgasamtökum í Pakistan.
Sérsveitarmennirnir fóru herbergi úr herbergi við leitina að gíslunum og þykir of snemmt að skera úr um hvort tekist hafi að hafa hendur í hári allra hryðjuverkamannanna sem þar voru.
Á sama tíma telur lögreglan að aðeins einn særður vígamaður gangi enn laus á Taj Mahal-hótelinu í borginni, sögufrægu hóteli sem gegnir mikilvægu hlutverki í sjálfstæðisbaráttu Indverja.