Bandarískur liðhlaupi leitar hælis í Þýskalandi

Andre Shepherd á blaðamannafundi í Frankfurt í dag.
Andre Shepherd á blaðamannafundi í Frankfurt í dag. Reuters

Bandarískur hermaður sem yfirgaf hersveit sína til að komast hjá því að verða sendur aftur til Íraks hefur óskað eftir hælisvist í Þýskalandi. Hann segir að Íraksstríðið sé ólöglegt og að hann gæti ekki stutt þau hroðaverk sem eigi sér nú stað í landinu.

Liðhlaupinn, Andre Shepherd, sem er 31s árs, þjónaði í Írak frá september árið 2004 til febrúar árið 2005. Hann var vélvirki í Apache-árásarþyrlu Bandaríkjahers. Hann hefur búið í Þýskalandi frá því hann yfirgaf herinn á síðasta ári.

„Þegar ég las og heyrði um fólk sem verið er að tæta í sundur með vélbyssum, eða er verið að sprengja í loft upp með Hellfire-eldflaugum, þá fór ég að skammast mín fyrir það sem ég var að gera,“ sagði Shepherd á blaðamannafundi í Frankfurt í dag.

„Ég gat ekki haldið þessu áfram með góðri samvisku,“

Shepherd, sem er frá Cleveland í Ohio, sótti um hæli í gær. Skv. bandarískum lögum geta þeir hermenn sem gerast liðhlaupar á stríðstímum átt von á því að hljóta dauðadóm.

Shepherd segist hins vegar vera vongóður um að honum muni verða veitt hæli í Þýskalandi, en þarlend stjórnvöld eru yfirlýstir andstæðingar Íraksstríðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert