Obama heitir nýju upphafi

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, hét nýju upphafi þegar hann taki við stjórnartaumunum í Hvíta húsinu í janúar. Obama hvatti Bandaríkjamenn til að vinna saman að því að komast upp úr efnahagslægðinni.

„Um helgina, með einu hjarta og einni rödd, munu Bandaríkjamenn færa þakkir sínar að nýir og bjartari dagar séu framundan,“ sagði Obama í vikulegu ávarpi Demókrataflokksins. Það er venjulega á laugardögum, en þar sem Þakkargjörðarhátíðin er um helgina var því flýtt.

Obama benti á í ávarpi sínu að Abraham Lincoln hafi átt þátt í því að Bandaríkjamenn haldi Þakkargjörðardaginn hátíðlegan. Það hafi Lincoln gert á mjög erfiðum tímum í sögu Bandaríkjanna, eða árið 1863 þegar borgarastyrjöldin stóð sem hæst.

„Um þessa Þakkargjörðarhátíð eru tímarnir einnig erfiðir fyrir þjóðina,“ sagði Obama og vísaði til efnahagskreppunnar.

„Af þeim sökum er ég reiðubúinn að vinna að nýju upphafi frá þeirri stund sem ég tek við embætti forseta Bandaríkjanna,“ sagði Obama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert