Umsátur í Mumbai

Rúmlega hundrað manns eru látnir eftir að hópar vopnaðra manna réðust inn á nokkur hótel, veitingastað, yfirfulla lestarstöð og miðstöð gyðinga í Mumbai á Indlandi í gærkvöldi. Vestrænum ferðamönnum er haldið í gíslingu og enn er setið um hluta borgarinnar.

Að sögn yfirvalda er vitað til þess að 101 hafi látist og 287 særst. Átta árásarmannanna hafa verið drepnir. Enn heyrist byssugnýr í borginni og tilkynnt hefur verið um útgöngubann í nágrenni við Taj Mahal hótelið þar sem sérsveitarmenn hafa verið sendir inn en gíslar eru í haldi á hótelinu, einnig eru gíslar í haldi á Oberoi hótelinu.  

Að sögn indverskra stjórnvalda er talið að 10-12 vopnaðir menn haldi 100-200 gíslum í hótelunum. Gíslatökumennirnir krefjast þess að allir íslamistar verði látnir lausir úr indverskum fangelsum en stjórnvöld segja útilokað að samið verði við þá.

Áður óþekktur hópur múslima sem kallar sig Deccan Mujahideen hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum en ekki hefur reynst mögulegt að sannreyna þá yfirlýsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert