Æstur múgur varð starfsmanni Wal-Mart að bana

Svona var umhorfs í Wal-Mart verslun í Colorado í dag.
Svona var umhorfs í Wal-Mart verslun í Colorado í dag. AP

Starfsmaður Wal-Mart verslunarkeðjunnar á Long Island í New York ríki lést þegar æstir kaupendur þustu inn í verslunina í dag til að gera góð kaup. Að minnsta kosti fjórir aðrir slösuðust, þar á meðal ólétt kona. Búið er að loka versluninni.

Forsvarsmenn verslunarkeðjunnar segja að um sorglegan atburð hafi verið að ræða. Starfsmaðurinn sem lést var við viðhaldsvinnu þegar hann lést.

Samstarfsmaður hans segir að hann hafi orðið undir um 200 manns sem hafi reynt að troða sér inn í verslunina. Hann segir að æstur múgurinn hafi einnig rifið niður aðalhurðina. „Ég varð bókstaflega að berjast við fólk,“ segir hann.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést. Ekki liggur fyrir með nákvæmum hætti hvað varð manninum að bana.

Kaupendur um gervöll Bandaríkin hafa hugsað sér gott til glóðarinnar í dag á svokölluðum Svörtum föstudegi, sem kemur í kjölfar Þakkargjörðardagsins. Þá opna margar verslanir snemma og eru opnar langt fram á kvöld. Víða er hægt að gera mjög góð kaup á þessum degi.

Að sögn sjónvarvotta hélt fólk áfram að troðast jafnvel þegar sjúkraflutningamenn voru mættir á svæðið. „Þeir voru að reyna að endurlífga hann, en maður gat séð að hann var dáinn,“ sagði einn sjónarvotta og bætti við: „Fólk hélt samt áfram að streyma inn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert