Hallar undir stjórn Browns

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þarf aftur að fara að líta …
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þarf aftur að fara að líta í kringum sig að keppinautum um formannssætið í Verkamannaflokknum, ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar. Reuters

Aftur er tekið að halla undan stjórn Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands, eftir fylgisaukningu að undanförnu, ef marka má nýja könnun.

Samkvæmt könnuninni, sem gerð var af fyrirtækinu ICM fyrir dagblaðið Guardian, hefur Íhaldsflokkurinn 45 prósent fylgi, þremur prósentum meira en í síðustu könnun, en Verkamannaflokkurinn aðeins 30 prósent fylgi.

Mælist fylgi Verkamannaflokksins óbreytt frá því í október, þrátt fyrir 20 milljarða punda viðbragðspakka stjórnarinnar í vikunni.

Þá mælast Frjálslyndir demókratar með 18 prósent fylgi, eða þremur prósentustigum minna en síðast.

Ljósið í myrkrinu er að fulltrúar Verkamannaflokksins í efnahagsmálum njóta meira trausts en fulltrúar íhaldsmanna í sama málaflokki.

Alls töldu 46 prósent aðspurðra að Íslandsvinunum Brown og Alistair Darling fjármálaráðherra væri best treystandi fyrir peningasjóðum landsins.

Til samanburðar sögðust 37 prósent aðspurðra best treysta David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins, og George Osborne, fjármálaráðherraefni hans, til að gæta sömu hagsmuna.

Niðurstöðurnar eru þvert á nokkrar nýlegar kannanir sem bent hafa til að bilið milli stóru flokkanna tveggja sé innan við fimm prósentustig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert