Neyðarlegt að kaupa smokka

Smokkar á boðstólum.
Smokkar á boðstólum. Reuters

Rúmlega 40% danskra ungmenna sem byrjuð eru að stunda kynlíf nota ekki smokkinn. Þriðjungur þeirra segir of neyðarlegt að kaupa smokka, þau taki því frekar hættuna á að smitast af kynsjúkdómum en að roðna við búðarkassann.

„Þegar haft er í huga að fjórða hvert ungmenni smitast af kynsjúkdómi fyrir 25 ára aldur verður að teljast undarlegt að smokkurinn sé ekki ofar á lista hjá þessum aldurshópi,“ segir framkvæmdastjóri danska Aids-sjóðsins, Henriette Laursen við Berlingske Tidende.

Laursen segist þó eiga auðvelt með að skilja að ungmenni eigi erfitt með að kaupa smokka í bland við kjúklinga og mjólk í stórmörkuðum og gleðst því yfir því að sérstök smokkaverslun opnar senn í Kaupmannahöfn, á 20. alþjóðlega eyðnideginum þann 1.desember. Það verði vonandi til að auðvelda ungmennum í Kaupmannahöfn við smokkakaupin auk þess sem hægt verði að sækja ráð og fræðslu í búðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert