Clinton verði kjölfestan

Barack Obama og Hillary Clinton.
Barack Obama og Hillary Clinton. Reuters

Bandaríska dagblaðið The New York Times segir að pólitískar sættir milli Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, og öldungadeildarþingmannsins Hillary Clinton muni verða innsiglaðar með formlegum hætti á morgun þegar Obama mun útnefna Clinton sem næsta utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Þetta hefur blaðið eftir nánum samstarfsmönnum Obama í dag.

Clinton, sem háði harða baráttu við Obama um forsetaútnefningu demókrata fyrr á þessu ári, er væntanleg til Chicago þar sem hún mun koma fram með Obama, sem er þeirrar skoðunar að Clinton muni styrkja næstu ríkisstjórn.

Clinton mun vera kjölfesta teymis sem hefur yfirumsjón með öryggismálum í Bandaríkjunum. Þá hefur komið fram að það sé talið líklegt að Obama muni tilkynna það með formlegum hætti að repúblikaninn Rober Gates muni áfram starfa sem varnarmálaráðherra landsins. Hann hefur gegnt embættinu undanfarin tvö ár.  Þá verði hershöfðinginn James L. Jones, sem var kominn á eftirlaun, útnefndur þjóðaröryggisráðgjafi forsetans.

Þá mun Obama útnefna Eric H. Holder sem næsta dómsmálaráðherra landsins og Janet Napolitano verði heimavarnaráðherra að sögn heimildarmanna The New York Times.

Það segir að Obama muni útnefna Susan E. Rice sem sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, en það starf mun jafngilda ráðherraembætti líkt og var í stjórnartíð Bill Clinton.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert