Kosið um kannabis og heróin í Sviss

Lauf kannabisplöntunnar.
Lauf kannabisplöntunnar. mbl.is

Svisslendingar kjósa í dag um fíkniefni. Annars vegar er þeim gert að taka afstöðu til þess hvort leyfa eigi læknum að skrifa upp á heróín. Talið er líklegt að þessi tillaga verði samþykkt og þá yrði Sviss fyrsta landið í heiminum til þess að lögleiða heróín, en í Sviss hefur nú í áratug verið gerð tilraun með að útvega fíklum heróín þeim að kostnaðarlausu.

Fylgjendur tillögunnar segja þetta hafa haft jákvæð áhrif þar sem glæpatíðni heróínfíkla hafi hríðlækkað og fíkniefnaneytendurna sé ekki lengur að finna í opinberum almenningsgörðum.

Þeir sem eru á móti tillögunni segja hana senda röng skilaboð til ungs fólks og skaði fíkniefnaneytendurna. Allar líkur eru þó til þess að tillagan verði samþykkt þar sem almenningur hafi góða reynslu af þessari tilraun síðustu tíu ára.

Hin tillagan snýr að lögleiðingu kannabis, sem ekki er talið jafn líklegt að verði samþykkt. Svissneska lögreglan hefur árum saman horft í gegnum fingur sér þegar kemur að hóflegri notkun almennings á kannabis. Nýlegar kannanir sem benda til þess að langtímanotkun sé skaðlegri en áður var haldið, eru taldar líklegar til þess að hafa þau áhrif að margir munu leggjast gegn tillögunni um lögleiðingu efnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert