Þar sem mafían á landið

Spilling er landlæg í Búlgaríu og nú er svo komið að Evrópusambandið hefur ákveðið að svipta Búlgara 220 milljóna evra aðstoð sem þeim var ætluð. Það hefur ekki gerst áður að Evrópusambandsríki hafi verið lýst of spillt til þess að treysta mætti því að aðstoð yrði notuð svikalaust. Telja ráðamenn í Evrópusambandinu að ærin ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að búlgörsk stjórnvöld geti ekki komið í veg fyrir að skipulögð glæpasamtök sópi fénu til sín.

Framlög til Búlgaríu að andvirði 486 milljóna evra voru fryst í júlí og svo gæti farið að Búlgarar verði af hærri upphæðum en 220 milljónunum, sem tilkynnt var að þeir fengju ekki á þriðjudag. Gefnar hafa verið vonir um allt að 11 milljarða evra frá ESB til uppbyggingar í Búlgaríu.

Búlgaría er sagt spilltasta land í Evrópu. Náin tengsl eru milli glæpaforingja og stjórnmálaforingja. Glæpasamtökin hagnast á smygli og svartamarkaðsbraski og eru með puttana í opinberum framkvæmdum og hvers kyns framleiðslu. Þeir sem ekki spila með eru í bráðri hættu. Samkvæmt bókhaldi bandaríska sendiráðsins í Sofiu, höfuðborg Búlgaríu, eru fórnarlömb leigumorðingja komin yfir 125 og voru þar ekki talin með fimm morð, sem framin hafa verið á þessu ári.

Um þessar mundir er í tísku að vera á móti spillingu í Búlgaríu og boðaðar hafa verið umfangsmiklar aðgerðir, en eins og Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál hjá Evrópusambandinu, sagði fer lítið fyrir þeim aðgerðum í raun.

Ástandið í Búlgaríu á sér rætur í fortíðinni. „Smygl er okkar þjóðararfur,“ segir stjórnmálafræðingurinn Ivan Krastev í bókinni McMafia eftir Misha Glenny. „Okkar slóðir hafa alltaf verið milli stórra hugmyndakerfa, á milli rétttrúnaðar og rómversk-katólsku, á milli íslams og kristni, á milli kapítalisma og kommúnisma. Á milli stórvelda sem voru gagnsýrð af andúð og tortryggni hver í garð annarra, en voru um leið heimkynni margra sem vildu stunda viðskipti yfir hin forboðnu landamæri. Á Balkanskaganum kunnum við að láta þessi landamæri hverfa. Við getum farið yfir mesta ólgusjóinn og klifið erfiðasta fjallið. Við þekkjum hverja leynislóð og dugi það ekki vitum við verðið á hverjum landamæraverði.“

Þegar búlgarski kommúnistaflokkurinn lét undan þrýstingi Míkhaíls Gorbatsjovs Sovétleiðtoga um að leyfa stofnun hlutafélaga voru félagar í búlgörsku leyniþjónustunni, DS, ekki lengi að taka við sér. Þeir stofnuðu 90% þeirra hlutafélaga, sem voru sett á laggirnar fyrsta árið eftir að lögin voru sett. Þegar kommúnistastjórnin hrundi 1989 misstu margir starfsmenn DS vinnuna, en þeir voru ekki af baki dottnir. Þeir höfðu stundað skipulagða glæpastarfsemi á vegum ríkisins. Nú urðu þeir einkavæddir.

„Önnur lönd eiga sér mafíu,“ segir Atanas Atanasov, þingmaður og fyrrverandi yfirmaður gagnnjósna í Búlgaríu, sem margir hafa leitað til, sem vilja leka upplýsingum um spillingu. „Í Búlgaríu á mafían landið.“

Komið hafa fram gögn um að forkólfar skipulagðra glæpasamtaka séu í tygjum við Sergey Stanishev forsætisráðherra og hafi láti fé af hendi rakna til Sósíalistaflokks hans.

Stanishev er fyrrverandi blaðamaður og gekk í London School of Economics. George W. Bush Bandaríkjaforseti hrósaði honum í fyrra fyrir baráttu hans gegn skipulagðri glæpastarfsemi og gaf honum viðurnefnið „herra hreinn“. Það var áður en fram komu myndir frá árinu 2005 af fundi Stanishevs með Mario Nikolov, sem dreginn hefur verið fyrir rétt fyrir svik. Nokkrum vikum eftir fundinn byrjuðu framlögin að streyma til flokks Stanishevs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert