Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur samþykkt að greina frá nöfnum þeirra rúmlega 200 þúsund einstaklinga og stofnana sem veitt hafa stofnun hans fjárframlög. Þetta gerir hann til þess að greiða fyrir því að eiginkona hans, Hillary Clinton, geti orðið næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Reiknað er með því að Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, útnefni Hillary Clinton næsta utanríkisráðherra Bandaríkjanna á morgun.
Síðan Bill Clinton lét af embætti sem forseti hefur hann notið
stuðnings bæði einstaklinga og fyrirtækja við uppbyggingu stofnunar sem
kennd verður við hann.
Í herbúðum Baracks Obama höfðu menn
áhyggjur af að þetta gæti leitt til hagsmunaárekstra og því var þetta
samkomulag gert við forsetann fyrrverandi.
Clinton féllst
einnig á að leggja ræður sínar og viðskiptaáætlanir fyrir siðanefnd
þingsins svo lengi sem kona hans gegnir embætti utanríkisráðherra.