Danskt viðskiptalíf er í uppnámi eftir að ljóst varð í dag, að þekkt hugbúnaðarfyrirtæki, IT-Factory, er gjaldþrota og forstjórinn, Stein Bagger, er stunginn af með hálfan milljarð danskra króna, 12 milljarða íslenskra króna. Hefur alþjóðleg handtökuskipun verið gefin út á hendur Bagger.
IT-Factory hefur starfað í 11 ár. Fyrir skömmu tilkynnti fyrirtækið á vef sínum, að búist væri við 400 milljóna danskra króna hagnaði á þessu ári og í nóvember fékk IT-Factory sérstök verðlaun fyrir að vera það fyrirtæki, sem hraðast hefur vaxið. Í fyrra valdi dagblaðið Børsen Bagger viðskiptamann ársins.
En í síðustu viku kom babb í bátinn þegar Bagger, sem er 41 árs gamall fjölskyldumaður, hvarf þar sem hann var í viðskiptaferð í Dubai. Í kjölfarið kom í ljós, að forstjórinn hafði að undanförnu setið á leynilegri skrifstofu og gefið út falska vörureikninga, sem hann hafði síðan fengið greidda og stungið fénu í vasann.
Asger Jensby, stjórnarformaður IT-Factury og stór hluthafi, segir að þetta hafi komið honum gersamlega í opna skjöldu. Fyrirtækið var m.a. meðal styrktaraðila hjólreiðaliðsins Team Saxo Bank, sem Bjarne Riis stjórnaði.
Endurskoðunarfyrirtækið KPMG í Danmörku gæti einnig verið í vondum málum en fyrirtækið var endurskoðandi IT-Factory.