Bílasala á Spáni var 50% minni í nóvember en á sama tíma í fyrra. Þetta er næstmesti samdráttur sem orðið hefur í bílasölu í landinu.
Samdrátturinn í bílasölu á Spáni er glöggt merki um versnandi efnahag í landinu í kjölfar alþjóðakreppunnar. Síðustu ár hefur efnahagsástand á Spáni þótt eitt hið besta í Evrópu en verulega hefur hallað undan að undanförnu. Áföll hafa dunið á byggingariðnaði og nú er bílaiðnaður landsins í hættu.
Í nóvember síðastliðnum seldust rúmlega 63 þúsund bílar en í nóvember í fyrra nam salan rúmlega 125 þúsund bílum. Samdrátturinn er 49,6%.
Alþjóðleg lánsfjárkreppa skýrir þennan mikla samdrátt en um 80% bíla á Spáni eru keyptir með afborgunum.
Nokkrir stórir bílaframleiðendur, Ford, General Motors og Volkswagen, hafa á síðustu vikum tilkynnt um uppsagnir og samdrátt í verksmiðjum sínum á Spáni.