Fjármálaráðherrum evruríkjanna 15 mistókst í dag að ná einingu um fyrirhugaðan 200 milljarða evra efnahagsörvunarpakka. Ráðherrarnir komu sér hins vegar saman um nauðsyn sameiginlegra aðgerða til að sporna gegn frekari niðursveiflu í álfunni.
Jean-Claude Juncker, fjármálaráðherra Lúxemborgar, taldi ekki tilefni til að gera mikið úr ósamstöðunni um hinn 37.400 milljarða króna björgunarpakka.
„Ég myndi ekki gera of mikið úr tölunum. Það sem skiptir máli er að allir séu sammála um hina almennu stefnumótun,“ sagði Juncker, eftir fundinn með kollegum sínum.
„Einhugur er um að við þurfum á öflugri innspýtingu í hagkerfin að halda.“
Líkt og í Bandaríkjunum er þrýst á um íhlutun Evrópusambandsins andspænis kreppunni og í því skyni samþykkti framkvæmdastjórn sambandsins síðasta miðvikudag að bæta verulega í opinberar framkvæmdir, ásamt því að leggja fram skattalækkanir til að örva neyslu í samdrættinum.
Nema heildarútgjöld af þessum sökum alls 200 milljörðum evra, eða um 37.400 milljörðum króna á núverandi gengi.