Fallast á að yfirgefa flugvöll

Farangri hlaðið inn í flugvél á Suvarnabhumi flugvelli fyrir stundu.
Farangri hlaðið inn í flugvél á Suvarnabhumi flugvelli fyrir stundu. Reuters

Stjórnarandstæðingar í Taílandi, sem hafa lokað alþjóðaflugvöllum í Bangkok undanfarna daga, féllust í morgun á að yfirgefa flugvöllinn. Fékkst þessi niðurstaða eftir að hæstiréttur landsins leysti upp tvo stærstu stjórnarflokka landsins og vék forsætisráðherranum úr embætti.

Haft var eftir Somkiat Pongpaiboon, leiðtoga Lýðræðisbandalags alþýðu, að flugvélum yrði leyft að lenda og fara á loft frá Suvarnabhumi flugvellinum.

Félagar í bandalaginu náðu flugvellinum og öðrum minni flugvelli í borginni á sitt vald í síðustu viku. Talið er að aðgerðirnar hafi haft áhrif á  350 þúsund farþega og valdið efnahag landsins miklum skaða. Kröfðust mótmælendur afsagnar Somchai Wongsawat, forsætisráðherra.

Hæstiréttur Taílands komst að þeirri niðurstöðu í morgun, að  stjórnarflokkarnir tveir og leiðtogar þeirra, þar á meðal Somchai, hefðu gerst sekir um kosningasvik. Voru flokkarnir leystir upp og Somchai bannað að hafa afskipti af stjórnmálum í fimm ár. Sagðist hann í morgun myndu hlýta dómnum.

Búist er við því að ráðherrar úr þeim þremur stjórnarflokkum sem dómurinn náði ekki til, muni hugsanlega sameinast öðrum flokkum og reyna að koma saman nýrri samsteypustjórn og í kjölfarið velja nýjan forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert