Japanska Kyodo-fréttastofan greinir frá því að Japanir hafi keypt íslenskt hvalkjöt, í fyrsta sinn í 17 ár. Fram kemur að kjötið sé búið að fara í gegnum tollskoðun og að það sé þegar komið í sölu. Þetta hefur fréttastofan eftir ónefndum japönskum embættismanni.
Þá segir að embættismennirnir hafi ekki gefið nánari upplýsingar um málið.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. sendi í júní í sumar, 80 tonn af kjöti til Japans. Um er að ræða afurðir af langreyðum, sem veiddar voru árið 2006. Þá sendu Norðmenn 5 tonn af hrefnukjöti með sömu sendingu.
Ekkert innflutningsleyfi fékkst hins vegar frá japönskum stjórnvöldum og lá kjötið í frystigeymslu í Japan. Um miðjan nóvember kom hins vegar fram í japönskum fjölmiðlum að innflutningsleyfið hefði fengist.