Fréttaskýring: Obama og sinnepið

Michael Dukakis með hjálminn góða. Hann hefði betur sleppt myndatökunni.
Michael Dukakis með hjálminn góða. Hann hefði betur sleppt myndatökunni.

Frambjóðendur hafa í gegnum tíðina gert ýmsar breytingar á eigin háttum til að falla í kramið á kjósendum. Barack Obama faldi fikt sitt við reykingar og John Kerry varð það á að biðja um svissneskan ost þegar hann hefði betur látið venjulegan ost duga.

Á tímum þegar fjölmiðlar leita stöðugt að smæstu smáatriðum til að geta skapað nýjan fréttahring í umfjöllun um kosningar geta smávægileg óhöpp valdið þungu hlassi.

Obama var einkar meðvitaður um þetta þegar hann var eitt sinn á atkvæðaveiðum í Illinois. Frambjóðandinn pantaði þá hamborgara á veitingastað og hugðist svo bragðbæta hann með sinnepi. Varð þá fyrsta hugsun hans sú að fá sér Dijon-sinnep, nokkuð sem ráðgjafi hans tók ekki í mál, enda gæti hann þar með litið út fyrir að vera snobbaður.

Kerry, hinn seinheppni stjórnmálamaður, var ekki jafn heppinn.

Þannig var Kerry eitt sinn staddur á veitingastað í Philadelphia þegar ósköpin dundu yfir. Honum var rétt samloka með ostasteik að hætti heimamanna (Philly cheesesteak sandwich). Heimamenn fylgdust ánægðir með frambjóðandanum. Hann var einn af þeim eða þangað til stóra stundin rann upp. Í stað þess að þiggja hana með þökkum bað Kerry um að fá svissneskan ost á samlokuna en ekki Cheeze Whiz ostasósu gumsað yfir, að hætti bláflibba.

Þetta fældi þegar í stað mikilvæga kjósendahópa úr röðum verkamanna, sem litu svo á að með þessu hefði Kerry staðfest þá fordóma að þar færi snobbhæna úr yfirstétt.

Einn nánasti kosningaráðgjafi Kerrys, Robert Gibbs, sem síðar starfaði fyrir Obama, lá í símanum næstu daga á eftir til að lágmarka skaðann, eins og David Mendell rekur skemmtilega í bókinni Obama: From Promise to Power.

Segir þar að næstu daga hafi Gibbs hvæst á aðstoðarmenn Kerrys um láta honum „árans pylsu í hönd“.

Seinheppinn Kerry

Annað glappaskot Kerrys kemur upp í hugann, nefnilega þau orð hans skömmu fyrir þingkosningarnar 2006, þegar demókratar unnu mikinn sigur, að ungt fólk ætti betur að leggja hart að sér við námið, að öðrum kosti gæti það átt á hættu að ílengjast í Írak.

Íraksmálin vógu þá þungt í kosningabaráttunni og afgreiddi tímaritið The Economist ummælin með því að birta mynd af Kerry við hliðina á grein um málið, þar sem sagði einfaldlega „Leynivopnið“.

Eins og vikið er að í kvikmynd Oliver Stone „W“, fremur einhliða túlkun á lífshlaupi núverandi Bandaríkjaforseta, þá hefði demókratinn Michael Dukakis betur látið ógert að láta mynda sig með hjálm í skriðdreka í kosningabaráttunni 1988.

Varnarmálin þóttu hans veika hlið og nýtti framboð George H. W. Bush sér óspart að Dukakis þótti fremur kjánalegur í tryllitækinu. Manni sem liti svona út í skriðdreka væri vart treystandi að verða yfirmaður heraflans.

Allt nema að horfa á úrið

Sjálfum skrikaði Bush eldri fótur í kosningabaráttunni 1992.

Bill Clinton hafði þá lagt þunga áherslu á efnahagsmálin í framboði sínu með góðum árangri. Frasinn „It's the economy stupid“ varð á allra vörum.

Þegar Bush eldri barst spurning úr sjónvarpssal í einni sjónvarpskappræðnanna hefði hann því betur svarað með allri athygli fremur en að horfa á armbandsúrið, líkt og honum leiddist þófið (sést í upphafi myndskeiðisins).

Snerist spurningin um hvaða áhrif niðursveiflan og skuldasöfnun ríkisins hefði haft á forsetann sem virtist til að byrja með ekki hafa neinn áhuga á að svara konunni. Í löngu svari fylgdi afar óheppilegur samanburður við krabbamein. Slíkt krækir ekki í fylgi hjá konum sem hafa áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins.

En Bush eldri tapaði sem kunnugt er fyrir Clinton í kosningunum.

Leynivopnið John Kerry.
Leynivopnið John Kerry. AP
George H.W. Bush getur verið óþreyjufullur maður.
George H.W. Bush getur verið óþreyjufullur maður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert