Öryggisráðið framlengir aðgerðir gegn sjóránum

Olíuflutningaskipið Sirius Star sem sómalskir sjóræningjar rændu á Aden flóa …
Olíuflutningaskipið Sirius Star sem sómalskir sjóræningjar rændu á Aden flóa í síðasta mánuði

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að framlengja um eitt ár heimild annarra þjóða til að senda herskip inn í lögsögu Sómalíu til að takast á við þann vanda sem sjórán eru orðin á því svæði.

Alls hafa sjóræningjar rænt eða gert árásir á 100 skip undan ströndum Austur-Afríku í ár, samanborið við 31 tilvik í fyrra og 10 tilvik árið áður. Aðgerðirnar eru því nauðsynlegar að mati fulltrúa í öryggisráðinu. 14 skip eru enn á valdi sjóræningja ásamt 250 manna áhöfnum skipanna.

Samþykkt öryggisráðsins gerir ráð fyrir valdbeitingu til að hindra sjórán en áður þarf viðkomandi þjóð að leita heimildar tímabundinnar ríkisstjórnar Sómalíu. Ennfremur er áskilið að Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, verði gert viðvart áður en gripið er til vopna.

Síðasta árás sjóræningjanna var á skemmtiferðaskip sem var á siglingu undan ströndum Sómalíu. Um borð voru 1000 farþegar og 400 manna áhöfn. Sjóræningjarnir skutu á skipið. Með því að beita vélum skipsins til fulls komst það undan ræningjunum.

Í september náðu sjóræningjar á sitt vald úkraínsku flutningaskipi sem flutti meðal annars þungavopn og um miðjan síðasta mánuð rændu þær Sádí-Arabísku olíuflutningaskipi. Um borð í því var olíufarmur að verðmæti 100 milljónir bandaríkjadala.

Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna samþykkti í júní síðastliðnum með öllum greiddum atkvæðum að leyfa öðrum þjóðum að senda herskip inn í lögsögu Sómalíu til að takast á við sjóræningja. Samþykktin gilti í sex mánuði. Hún er nú framlengd og gildir út árið 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert