Stjórnlagadómstóll Taílands hefur leyst upp tvo stærstu flokka ríkjandi samsteypustjórnar í landinu og dæmt forsætisráðherrann ásamt öðrum efstu mönnum flokkanna í bann frá þátttöku í stjórnmálum til fimm ára. Með dómsúrskurðinum er ríkisstjórn forsætisráðherrands umdeilda Somchai Wongsawat úr sögunni en þarlendir mótmælendur hafa krafist afsagnar stjórnarinnar mánuðum saman.
Dómarar úrskurðuðu að stjórnarflokkarnir tveir og leiðtogar þeirra, þar á meðal Somchai, hefðu gerst sekir um kosningasvik. Með dómnum er vonast til að þúsundir andstæðinga stjórnarinnar muni hætta umsátrinu, sem staðið hefur yfir í síðan fyrir helgi, um stærstu millilandaflugvelli Taílands. Forseti réttarins sagði að dómurinn gæfi mikilvægt pólitískt fordæmi. „Óheiðarlegir stjórnmálaflokkar grafa undan Tælensku lýðræði,“ hefur AP fréttaveitan eftir dómaranum, Chat Chavalorn.
Mótmælendur fagna úrskurðinum
Meira en 300.000 ferðamenn voru í gær strandaglópar í Taílandi og fór fjöldinn vaxandi en nú má vænta þess að þeir komist brátt heim. Einn stjórnarandstæðinga lést í gær í mótmælunum flugvelli í Bangkok eftir handsprengjuárás. Úrskurðurinn var lesinn upp á Suvarnabhumi flugvelli í morgun við mikinn fögnuð þúsunda mótmælenda sem féllust í faðma.
Í kjölfarið hefur verið tilkynnt að árlegri ráðstefnu Sambands Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN) sem halda átti í desember í Taílandi hafi verið frestað fram í mars vegna pólitísks óstöðugleika í landinu.
Búist er við því að ráðherrar úr þeim þremur stjórnarflokkum sem ekki hlutu dóm muni hugsanlega sameinast öðrum flokkum og reyna að koma saman nýrri samsteypustjórn og í kjölfarið velja nýjan forsætisráðherra.