Þúsundir barna á þunglyndislyfjum

Þúsundir ástralskra barna taka inn geðlyfið Prozac.
Þúsundir ástralskra barna taka inn geðlyfið Prozac.

Nýbirtar opinberar tölur í Ástralíu benda til að minnst 4.000 börn séu á þunglyndislyfjum, þar af mörg hundruð börn undir 5 ára aldri. Talið er talan kunni að vera miklu hærri.

Hátt í 50 ungabörn fá lyfjagjöf af þessu tagi og eru læknar ekki sagðir eiga til skýringar á því hvers vegna þau þurfi á lyfjunum að halda, að því er fram kemur í dagblaðinu The Australian.

„Þegar umrædd lyf eru höfð í huga eru líkurnar á umtalsverðum aukaverkunum - fyrir utan verkun þeirra - það sem veldur einkum áhyggjum. Það slær mig að það skuli vera talið skynsamlegt að læknir réttlæti lyfjagjöf af þessu tagi,“ sagði Gordon Parker, sérfræðingur í þunglyndi og stjórnandi stofnunarinnar Black Dog Institute, sem sérhæfir sig í þunglyndi og geðröskunum.

Þykja niðurstöðurnar gefa tilefni til að notkun barna á geðlyfjum verði tekin til gagngerðar endurskoðunar í Ástralíu.

Meðal þess sem áhyggjur manna beinast að er að þunglyndislyfið Venlafaxine skuli hafa verið ávísað á 3.347 börn í fyrra, þrátt fyrir að það standi skýrum stöfum á lyfjaglasinu að það skuli ekki gefið einstaklingum undir 18 ára aldri, enda hafi ekki farið fram rannsókn á öryggi og árangri lyfjagjafar á lyfinu í yngri aldurshópum.

Talskona lyfjafyrirtækisins Wyeth, sem framleiðir lyfið, sagði það ekki ætlað svo ungum einstaklingum þegar lyfjagjöfin var borin undir hana.

Að mati Peter Jenkins, sem fer fyrir samtökum ástralskra geðlækna, vekja hinar háu tölur ugg, jafnframt því sem umfangið sé dularfullt.

Af öðrum lyfjum má nefna að Prozac var ávísað á 7.833 börn undir 18 ára aldri, þar af á 863 börn sem eru yngri en 10 ára. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert