Friðrik krónprins Dana og Søren Gade, varnarmálaráðherra, heimsóttu í gær danska hermenn í Afganistan og dvöldu í herbúðum Dana í nótt. Ekki var skýrt frá heimsókninni fyrr en í dag þegar Friðrik og Gade voru farnir frá landinu.
Í tilkynningu frá danska varnarmálaráðuneytinu kemur fram að tvímenningarnir fóru til Armadrillo herbúðanna í suðvesturhluta Helmandhéraðs á mánudag. Þeir sváfu í svefnpokum í búðunum og snæddu í mötuneytinu með hermönnunum.
Þá heimsóttu Friðrik og Gade tvær aðrar danskar herbúðir og áttu viðræður við Abdul Ahad Khan, héraðsstjóra, og fleiri embættismenn á svæðinu.
Ráðuneytið segir, að Friðrik og Gade hafi viljað kynna sér aðbúnað hermannanna og þakka þeim fyrir framlag þeirra við að koma á stöðugleika í Afganistan.
Um 700 danskir hermenn eru nú í Afganistan, flestir í Helmandhéraði undir stjórn Breta. 16 Danir hafa látið lífið í landinu frá því Danir sendu fyrst hermenn þangað undir merkjum NATO árið 2001.