Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, var síður en svo hrifinn af David Cameron, leiðtoga breskra íhaldsmanna, þegar þeir hittust í Lundúnum í sumar. Hafði Obama á orði eftir fundinn að Cameron væri léttavigtarmaður í stjórnmálunum.
Þessu er haldið fram í grein blaðamannsins James Macintyre í tímaritinu New Statesman, þar sem vitnað er til ónafngreinds embættismanns um þessa skoðun forsetans verðandi.
Rekur Macintyre þar hvernig Cameron hafi látið í ljós tortryggni sína gagnvart Evrópusamstarfinu um 48 klukkustundum eftir ræðu Obamas við Brandenborgarhliðið í Berlín, þar sem frambjóðandinn lagði áherslu á mikilvægi Evrópu fyrir framtíð Bandaríkjanna og heimsins alls.
Þá leiðir Macintyre rök að því að stuðningur Camerons við innrásina í Írak hafi ekki hjálpað til við að mynda tengsl á milli leiðtoganna.
Segir í stjórnmálabloggi Pauls Owens á vef dagblaðsins Guardian að uppljóstrunin gæti skaðað þá ímyndarsmíði að Cameron sé stjórnmálamaður á heimsmælikvarða sem muni eiga í góðu samstarfi við stjórn Obamas fari svo að íhaldsmenn sigri í næstu þingkosningum.
Hefur greinarhöfundur New Statesman eftir ónafngreindum embættismanni í Verkamannaflokknum að Obama vilji sjá Evrópu sameinaða, en ekki sem sundurleitan hóp 27 ríkja.
Ber í þessu samhengi að geta þess að ofangreind lýsing kemur ekki heim og saman við frásögn Philips H. Gordons, helsta ráðgjafa Obamas í Evrópuferð frambjóðandans í sumar, í samtali hans við Morgunblaðið í ágúst.
Vitnaði Gordon þar meðal annars til þess augnabliks þegar Cameron og Obama ræddu í einlægni um vanda þess og vegsemd að vera leiðtogi, án þess að gera sér grein fyrir því að hljóðneminn væri nærri.