Ekki hrifinn af Cameron

Obama og Cameron ræða málin í Lundúnum í sumar.
Obama og Cameron ræða málin í Lundúnum í sumar.

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, var síður en svo hrifinn af David Cameron, leiðtoga breskra íhaldsmanna, þegar þeir hittust í Lundúnum í sumar. Hafði Obama á orði eftir fundinn að Cameron væri léttavigtarmaður í stjórnmálunum.

Þessu er haldið fram í grein blaðamannsins James Macintyre í tímaritinu New Statesman, þar sem vitnað er til ónafngreinds embættismanns um þessa skoðun forsetans verðandi.

Rekur Macintyre þar hvernig Cameron hafi látið í ljós tortryggni sína gagnvart Evrópusamstarfinu um 48 klukkustundum eftir ræðu Obamas við Brandenborgarhliðið í Berlín, þar sem frambjóðandinn lagði áherslu á mikilvægi Evrópu fyrir framtíð Bandaríkjanna og heimsins alls.

Þá leiðir Macintyre rök að því að stuðningur Camerons við innrásina í Írak hafi ekki hjálpað til við að mynda tengsl á milli leiðtoganna.

Segir í stjórnmálabloggi Pauls Owens á vef dagblaðsins Guardian að uppljóstrunin gæti skaðað þá ímyndarsmíði að Cameron sé stjórnmálamaður á heimsmælikvarða sem muni eiga í góðu samstarfi við stjórn Obamas fari svo að íhaldsmenn sigri í næstu þingkosningum.

Hefur greinarhöfundur New Statesman eftir ónafngreindum embættismanni í Verkamannaflokknum að Obama vilji sjá Evrópu sameinaða, en ekki sem sundurleitan hóp 27 ríkja.

Ber í þessu samhengi að geta þess að ofangreind lýsing kemur ekki heim og saman við frásögn Philips H. Gordons, helsta ráðgjafa Obamas í Evrópuferð frambjóðandans í sumar, í samtali hans við Morgunblaðið í ágúst.

Vitnaði Gordon þar meðal annars til þess augnabliks þegar Cameron og Obama ræddu í einlægni um vanda þess og vegsemd að vera leiðtogi, án þess að gera sér grein fyrir því að hljóðneminn væri nærri.

Það sem fer upp það fer niður aftur gæti Cameron …
Það sem fer upp það fer niður aftur gæti Cameron verið að útlista fyrir Obama, enda félagarnir staddir í heimalandi Newtons.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert