Hryðjuverkamenn á kókaíni

Ungu mennirnir tíu, sem stóðu fyrir hryðjuverkaárásunum í Mumbai á Indlandi í rúma tvo sólarhringa samfellt í síðustu viku, héldu sér vakandi með aðstoð kókaíns og LSD. Þetta hefur breska blaðið Daily Telegraph eftir heimildarmönnum úr indversku lögreglunni. 

Lögreglan hefur fundið sprautur og leifar af fíkniefnum á stöðum þar sem mennirnir héldu sig. Þá fannst LSD og kókaín í blóði mannanna en níu þeirra létu lífið í átökum við lögreglu og sérsveitir.

Talið er að mennirnir hafi notað fíkniefni til að halda sér vakandi. Einn þeirra, sem bjó um sig í Taj Mahal hótelinu hélt uppi stöðugri skothríð á sérsveitarmenn í sex tíma samfellt þótt hann væri særður. Á endanum lét hann lífið. 

Lögreglumenn segja einnig við Telegraph að mennirnir hafi notað steralyf til að byggja sig upp.

Indversk stjórnvöld segja, að mennirnir hafi komið fá Pakistan. Lögregla náði einum þeirra á lífi. Telegraph fullyrðir, að lögregla áformi að gefa honum einskonar sannleikslyf svo hann veiti upplýsingar um hryðjuverkasamtökin sem hann tilheyrir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert