Bretar pyntuðu afa Baracks Obamas, verðandi forseta Bandaríkjanna, að því er grafið hefur verið upp af breska dagblaðinu Times. Afi Obamas, Hussein Onyango Obama, barðist með breska hernum í Búrma í síðari heimsstyrjöldinni og vonaðist þegar heim var snúið eftir auknu frelsi í Kenýa. Honum varð ekki að ósk sinni.
Onyango Obama gerðist kokkur í breska hernum heima í Kenýa, að lokinni herþjónustunni í Asíu, og ól um það leyti þá von í brjósti að hann mundi öðlast meira frelsi en áður undir stjórn Breta í Kenýa.
Vonbrigðin snerust upp í andstöðu við Bretana og gekk Onyango Obama í kjölfarið til liðs við uppreisnarmenn í Mau Mau-uppreisnarhreyfingunni.
Bretar tóku hart á uppreisnarmönnum og var Onyango Obama þar engin undantekning.
Hann var tekinn höndum árið 1949 og voru næstu tvö ár í lífi hans hreint helvíti á stundum.
Onyango Obama sætti þannig grimmilegum pyntingum og ef marka má lýsingar höfunda greinarinnar í Times, þeirra Ben Macintyre og Paul Orengoh, þá var hann húðstrýktur á hverjum morgni og sérhvert kvöld þar til hann játaði meintar sakir fyrir fangavörðunum, sem voru afrískir.
Í Kenýa er litið mjög alvarlegum augum á framferði Bretana og er enn unnið að söfnun sönnunargagna um grimmilega framkomu þeirra gagnvart heimamönnum.
Tengist gagnasöfnunin skaðabótamálum sem háð eru fyrir rétti í Bretlandi og miða að því að afla fórnarlömbum ofbeldisins og ættingjum þeirra skaðabóta vegna mannréttindabrota Breta.