Pyntuðu afa Obamas

Afi Barack Obama sætti pyntingum af hálfu Breta, að því …
Afi Barack Obama sætti pyntingum af hálfu Breta, að því er haldið er fram í nýrri grein. Reuters

Bretar pyntuðu afa Baracks Obamas, verðandi forseta Bandaríkjanna, að því er grafið hefur verið upp af breska dagblaðinu Times. Afi Obamas, Hussein Onyango Obama, barðist með breska hernum í Búrma í síðari heimsstyrjöldinni og vonaðist þegar heim var snúið eftir auknu frelsi í Kenýa. Honum varð ekki að ósk sinni.

Onyango Obama gerðist kokkur í breska hernum heima í Kenýa, að lokinni herþjónustunni í Asíu, og ól um það leyti þá von í brjósti að hann mundi öðlast meira frelsi en áður undir stjórn Breta í Kenýa.

Vonbrigðin snerust upp í andstöðu við Bretana og gekk Onyango Obama í kjölfarið til liðs við uppreisnarmenn í Mau Mau-uppreisnarhreyfingunni.

Bretar tóku hart á uppreisnarmönnum og var Onyango Obama þar engin undantekning.

Hann var tekinn höndum árið 1949 og voru næstu tvö ár í lífi hans hreint helvíti á stundum.   

Onyango Obama sætti þannig grimmilegum pyntingum og ef marka má lýsingar höfunda greinarinnar í Times, þeirra Ben Macintyre og Paul Orengoh, þá var hann húðstrýktur á hverjum morgni og sérhvert kvöld þar til hann játaði meintar sakir fyrir fangavörðunum, sem voru afrískir.

Í Kenýa er litið mjög alvarlegum augum á framferði Bretana og er enn unnið að söfnun sönnunargagna um grimmilega framkomu þeirra gagnvart heimamönnum.

Tengist gagnasöfnunin skaðabótamálum sem háð eru fyrir rétti í Bretlandi og miða að því að afla fórnarlömbum ofbeldisins og ættingjum þeirra skaðabóta vegna mannréttindabrota Breta. 

Heimamenn í haldi Breta í Kenýa á dögum Mau Mau-uppreisnarinnar.
Heimamenn í haldi Breta í Kenýa á dögum Mau Mau-uppreisnarinnar.
Einn uppreisnarmanna leggur niður vopn.
Einn uppreisnarmanna leggur niður vopn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka