Danska herskipið Absalon lagði í kvöld hald á vopn sómalskra sjóræningja sem höfðu ratað í vanda á Adenflóa. Absalon fékk neyðarkall frá sjóræningjaskipi sem var að sökkva í flóanum og kom áhöfninni til hjálpar. Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins.
Siglt var með sjóræningjana til Jemen þar sem þeir voru látnir í hendur yfirvalda. Komið hafa upp deilur um hvort danska flotanum sé heimilt að handtaka grunaða sjóræningja í Adenflóa. Áður hefur sjóherinn neyðst til að sleppa hópi grunaðra sjóræningja eftir sex daga varðhald.