Landstjóri Kanada, Michaelle Jean, hefur orðið við beiðni Stephen Harper, forsætisráðherra landsins, um að fresta þingstörfum tímabundið.
Með þessu vildi Harper fresta fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um framtíð minnihlutastjórnarinnar, en stjórnarandstaðan hefur lýst vantrausti á hana. Atkvæðagreiðslan um vantrauststillöguna átti að fara fram á mánudag.
Jean, sem er fulltrúi Elísabetar Bretadrottningar, hefur úrslitavald í málum sem þessum.
Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sameinast og það hefði þýtt ósigur fyrir stjórn Harpers ef tillagan hefði verið samþykkt, sem allt útlit var fyrir.
Harper bað Jean um að fresta þingstörfum til 27. janúar nk. þegar ríkisstjórnin hyggst kynna fjárlagafrumvarpið.
Beiðni forsætisráðherra Kanada um að fresta þingstörfum tímabundið hefur aldrei verið hafnað. Slík beiðni hefur hins vegar aldreið verið lög fram við svipaðar aðstæður, þ.e. þegar sitjandi stjórn veit að hún muni ekki standa af sér vantrauststillögu.