Framkvæmdastjórar helstu bílaframleiðslufyrirtækja Bandaríkjanna, General Motors, Ford og Chrysler, áttu á ný fund í bandaríska þinginu í dag þar sem þeir kröfðust enn hærri upphæðar en þeir gerðu fyrir tveimur vikum. Þeir segja fjárstuðning brýnan til að koma til móts við fyrirtækin sem eiga í miklum rekstrarerfiðleikum. Farið er fram á 34 milljarða Bandaríkjadali í stuðning.
Fyrir tveimur vikum fóru framkvæmdastjórarnir fram á 25 milljarða stuðning. General Motuors og Chrysler hafa varað við því að fyrirtækin gætu komist í þrot fyrir áramót berist þeim ekki aðstoð.
Krafa fyrirtækjanna hefur mætt andstöðu hjá bankamálanefnd öldungaráðsins „við erum ekki við það að skrifa ávísun og rétta þeim hana,“ hefur vefur CNN eftir Chris Dodd, formanni nefndarinnar. Hann sagði að á næstu dögum yrði unnið yrði að málinu í báðum deildum þingsins.
Ríkisstjórn George W. Bush hefur hingað til verið á móti því að ríkissjóður styðji við fyrirtækin og þykir ólíklegt að bandaríski seðlabankinn komi til aðstoðar.