George Bush Bandaríkjaforseti og eiginkona hans, Laura Bush, hafa fest kaup á húsi í auðmannahverfi í Dallas, Texas, þar sem þau munu búa eftir að Bush lætur af störfum og flytur úr Hvíta húsinu.
Að sögn talsmanns forsetafrúarinnar keyptu hjónin hús í hverfinu Preston Hollow en þangað munu þau flytja í janúar 2009. Þau eiga fyrir búgarð við lítinn bæ í Texas, þar sem þau hafa farið í frí sl. 8 ár, og hafa ekki í hyggju að selja hann.
Húsið er á tæpum hálfum hektara lands og er tæpir 800 fm að stærð, þar af fara rúmir 80 fm í vistarverur þjónustufólks. Óþekktur kaupandi keypti húsið við hliðina á og er talið að þar verði öryggisverðir á vegum bandaríski leyniþjónustunnar.
Bush bjó áður í Dallas, frá 1988-1995, áður en hann flutti í bústað ríkisstjórans í Texas sem staðsettur er í borginni Austin.