Framtíð bílarisa á bláþræði

Bandaríska þingið og Hvíta húsið eiga enn í erjum vegna þess hvort bílarisunum Chrysler, Ford og General Motors skuli bjargað úr fjárhagsörðugleikum. Framkvæmdastjórar fyrirtækjanna biðluðu annan daginn í röð til þingsins en þeir fara fram á 34 milljarða Bandaríkjadala í aðstoð.

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur gefið þinginu fyrirskipun um að ákvörðun verði tekin um málið í næstu viku en kom ekki með tillögu til að enda erjur við demókrata um hvaðan fjárstuðningurinn skuli koma.

Demókratar vilja að Hvíta húsið noti fé úr 700 milljarða dala björgunarpakka ríkisstjórnarinnar til að koma bílarisunum til bjargar, ríkisstjórnin vill hinsvegar ekki fallast á það og hefur efasemdir um framtíð fyrirtækjanna.

Talsmenn bandaríska þingsins sögðu í dag að ekki væri ljóst hver næstu skref yrðu og ekki víst hvort deildir þingsins myndu koma saman í næstu viku til að kjósa um björgunaraðgerðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert