Lögðu hald á 301 skotvopn

AP

Á innan við fimm mánuðum hefur danska lögreglan lagt hald á 301 skotvopn sem notað hefur verið til skipulagðra glæpa af glæpagengjum, þ.á m. 101 skammbyssu, 26 sjálfvirk vopn, 98 haglabyssur og 16 riffla.

„Áður fyrr var vopnunum komið undan eftir notkun en nú neyðast glæpamennirnir til að nota sömu vopnin aftur og aftur og það sýnir að við erum með þá undir pressu,“ hefur dagblaðið Berlingske Tidende eftir Kim Kliver, varalögreglustjóra hjá rannsóknarlögreglu ríkisins.

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur tekið eftir því að glæpamenn hafi nú úr færri vopnum að velja, nokkuð sem geti orðið til hjálpar við rannsóknir. „Það gerir auðveldara að finna sönnunargögn þegar við finnum fingraför á vopnunum auk þess sem hægt er að tengja glæpi saman með vopnunum,“ segir Per Larsen, yfirlögreglustjóri Kaupmannahafnar.

Að sögn rannsóknarlögreglu danska ríkisins hefur í ár komið til 82 skotbardaga í Danmörku sem hægt er að rekja til átaka á milli glæpagengja sem mörg hver berjast um ráðandi stöðu á eiturlyfjamarkaði landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka