Rúmlega 300 stúlkur í suðvesturhluta Kenía hafa flúið heimili sín og leitað skjóls í kirkjum í því skyni að sleppa undan því að verða umskornar. Stúlkurnar, sem sumar eru aðeins níu ára gamlar, hafast nú við í tveimur hjálparskýlum í Nyanza-héraði. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Umskurður á kynfærum kvenna er bannaður í Kenía en er samt iðkaður í einhverjum landshlutum þar sem hann er talinn hluti af þroskaferli stúlknanna. Umskurðirnir fara yfirleitt fram í nóvember og desember.
Lögregla veitir stúlkunum öryggi og reynir að koma í veg fyrir að þær verði áreittar eða farið með þær aftur heim. Árlega eiga um þrjár milljónir stúlkna það á hættu að verða umskornar í Afríku að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en umskurður getur leitt til mikilla blæðinga og sýkinga auk þess sem hann getur leitt stúlkurnar til dauða.