Eitur í írsku svínakjöti

Heilbrigðisyfirvöld og landbúnaðarráðuneytið á Írlandi fyrirskipuðu í dag innköllun á öllu svínakjöti sem framleitt hefur verið í landinu frá 1. september síðastliðnum.

Þrávirka eiturefnið díoxín fannst í kjötinu og svínafóðri og er magnið 80 til 200 sinnum meira en heimilt er samkvæmt reglugerðum. Allt kjöt sem framleitt hefur verið síðan í september hefur því verið innkallað.

Díoxín safnast fyrir í fitu svínanna og getur valdið krabbameini hjá þeim sem neyta sýkts kjöts.

Í yfirlýsingu sem Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands sendi frá sér, segir að landbúnaðarráðuneytið og matvælaeftirlitið séu enn að kanna umfang smitsins. Þó liggur fyrir að eiturefnið fannst bæði í svínakjöti og í fóðri sem svínunum hefur verið gefið.

Um fimm hundruð svínabú eru á Írlandi og hafa tíu bú verið sett í sóttkví. Um 7000 manns hafa atvinnu af svínarækt, þar af um 1200 manns á svínabúunum.

Írar framleiða 3,6 milljónir gripa á ári og er verðmæti framleiðslunnar um 450 milljónir evra á ári. Írar flytja um 60% svínakjötsframleiðslunnar úr landi. Í fyrra fluttu þeir 113.00 tonn af kjöti til Bretlands, auk þess sem um 500 þúsund gripir voru fluttir á fæti til Bretlands, til slátrunar og vinnslu. Þjóðverjar kaupa um 9.000 tonna af kjöti ári, Frakkar, Ítalir og lönd í Austur-Evrópu kaupa um 20.000 tonn á ári, til Rússlands eru flutt um 6.600 tonn af írsku svínakjöti á ári og til Kína rúm 1.000 tonn.

Þetta er annað stóra áfallið sem dynur á írskum bændum á stuttum tíma. Gin- og klaufaveiki kom upp í Bretlandi árið 2001 og þurfti að slátra hundruðum þúsunda gripa. Írum tókst að verjast smiti en engu að síður hrundi kjötútflutningur þeirra vegna veikinnar í Bretlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka