Caroline Kennedy, dóttir Johns F. Kennedys, fyrrum Bandaríkjaforseta, íhugar nú hvort hún muni sækjast eftir þingsæti Hillary Clinton í öldungadeild Bandaríkjaþings þegar Clinton tekur við embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna í janúar.
Caroline Kennedy átti fund með David A. Paterson, ríkisstjóra New York í vikunni þar sem þetta bar m.a. á góma. Paterson skipar í þingsætið til ársins 2010 en samkvæmt bandarískum reglum skipa ríkisstjórar í öldungadeildarþingsæti sem losna á miðju kjörtímabili. Clinton situr á Bandaríkjaþingi fyrir New York.
Robert F. Kennedy jr., frændi Caroline, sagði við New York Times, að hann hefði talað við frænku sína og teldi að hún væri að íhuga að sækjast eftir þingsætinu. Sagði hann marga hafa hvatt Caroline til þess.
Caroline Kennedy er 51 árs gömul og starfar sem lögmaður. Hún býr í Manhattan. Hún var opinber stuðningsmaður Baracks Obama, væntanlegs forseta Bandaríkjanna, þegar hann háði prófkjörsbaráttu við Hillary Clinton.