Óeirðir brutust út í miðborg Aþenu í Grikklandi í kvöld eftir að lögreglan skaut 16 ára pilt til bana. Upptök ólátanna urðu þegar ungmenni í Exarchia-hverfi nálægt höfuðborginni réðust á lögreglubíl með grjótkasti og eldsprengjum. Einn lögreglumannanna í bílnum hleypti af byssu og særði unglingspiltinn til ólífis.
Pilturinn var fluttur á sjúkrahús með hraði en dó við komuna þangað. Fréttin af andláti hans olli mikilli reiði hundruða ungmenna. Þau réðust á lögreglubíla með grjótkasti og eldsprengjum. Lögreglan brást við með því að beita táragasi gegn múgnum, rýmingu sumra veitingahúsa á svæðinu og lokun gatna fyrir umferð.