Brenndu á annað hundrað flutningabíla

AP

Skæruliðar brenndu í morgun á annað hundrað vöruflutningabíla Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Pakistan í nótt. Í bílunum voru lyf, hergögn, eldsneyti og matvæli fyrir hersveitir NATO í Afganistan.

Skæruliðarnir réðust til atlögu í skjóli nætur en flutningabílarnir voru við höfnina í borginni Peshawar. Tugir manna, vopnaðir byssum og flugskeytum gerðu árásina. Að minnsta kosti einn vörður féll.

Tölum um fjölda flutningabíla ber ekki saman. Lögregla segir að 62 bílar hafi verið brenndir en bandaríski herinn segir allt að 160 flutningabíla hafa eyðilagst.

Skæruliðarnir hopuðu eftir að hafa skipst á skotum við hersveitir NATO í rúmlega hálfa klukkustund.

Talsmenn NATO segja árásina ekki hafa teljandi áhrif á aðgerðir gegn talibönum í Afganistan. Árásir skæruliðasveita, sem styðja talibana í Afganistan, hafa verið tíðar á flutningalestir NATO í Khyber skarði að undanförnu. Skæruliðar reyna hvað þeir geta til að loka fyrir þessa mikilvægu flutningsleið milli Pakistan og Afganistan.

Um 75% allra aðfanga vestrænna hersveita í Afganistan eru flutt um Khyber skarð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert