Kínversk stjórnvöld hafa mótmælt harðlega fundi Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands með Dala Lama, andlegum leiðtoga Tíbeta. Kínverjar segja að ákvörðun Sarkozy hafi verið óskynsamleg. Með fundinum hafi Frakklandsforseti móðgað kínversku þjóðina og grafi jafnframt undan samskiptum þjóðanna.
Sarkozy Frakklandsforseti þingaði með Dalai Lama í hálfa klukkustudn í gær í pólsku hafnarborginni Gdansk. Báðir voru staddir í Póllandi til að taka þátt í hátíðahöldum í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því að Lech Walesa, fyrrverandi leiðtogi Samstöðu og forseti Póllands, hlaut friðarverðlaun Nóbels.
Kínversk stjórnvöld ítrekuðu þá afstöð sína að málefni Tíbet séu innanríkismál Kínverja. Dalai Lama sé pólitískur útlagi sem reyni að tvístra Kína og grafa undan félagslegum stöðugleika og þjóðernissamkennd í Tíbet undir trúarlegu yfirskyni.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands gerði lítið úr andmælum Kínverja og sagði að fundurinn með Dalai Lama ógnaði ekki á neinn hátt stjórnvöldum í Bejing.