Tveir lögreglumenn voru handteknir í Grikklandi í dag en þeir eru taldir bera ábyrgð á því, að 15 ára piltur var skotinn til bana í Aþenu í gær. Fréttir af láti piltsins vöktu mikla reiði í Grikklandi og hafa ungmenni í gærkvöldi og dag barist við lögreglu í Aþenu og víðar í landinu.
Þúsundir mótmælenda börðust við lögreglu í miðborg Aþenu í dag. Voru rúður brotnar í búðargluggum og bönkum með bensínsprengjum. Lögregla beitti táragasi til að dreifa fólkinu. Þrír lögreglumenn voru fluttir á sjúkrahús og 14 mótmælendur fengu aðhlynningu en þeir áttu erfitt með andardrátt vegna áhrifa táragassins. 10 voru handteknir.
Í borginni Patras var lögreglumaður fluttur á sjúkrahús eftir að hópur ungmenna réðist á hann.
Pilturinn sem lést, Andreas Grigoropoulos, var í hópi ungmenna, sem grýttu lögreglubíl í Exarchiahverfinu í Aþenu í gær. Tveir lögreglumenn voru í bílnum og fór annar þeirra út, dró upp byssu sína og skaut þremur skotum á unglinginn. Hann var fluttur á sjúkrahús en var úrskurðaður látinn.