Verstu óeirðir síðan 1991

Í sumum hverfum miðborgar Aþenu, höfuðborgar Grikklands, þekja nú götur brunnar og brotnar leifar af ýmsu sem æstur múgur tók úr verslunum og braut og brenndi í miklum mótmælum. Brotist var inn í margar verslanir og þær skildar eftir opnar og kveikt í húsum. Óeirðirnar eru taldar þær verstu í landinu síðan í janúar 1991.

Slökkviliðsmenn voru enn að berjast við eldana í morgun. Í þremur húsalengjum við Ermoustræti, þar sem húsnæðisverð er með því hæsta sem gerist í Evrópu, voru unnar skemmdir á a.m.k. 21 verslun. Rúður voru brotnar og sótugar eftir að eldsprengjum hafði verið kastað að þeim. Gangandi vegfarendum var ekki hleypt að einni húsalengjunni þar sem slökkviliðsmenn voru að slökkva elda. Þriggja hæða húsið var rjúkandi rúst.

Óeirðirnar sem hófust í Aþenu breiddust út til Þessaloníku, næst stærstu borgar Grikklands, og a.m.k. fimm annarra borga. Óeirðirnar eru taldar þær mestu í landinu frá því í janúar 1991.

Óeirðirnar hófust í gærkvöldi eftir að lögreglan skaut 16 ára pilt til bana um kl. 21.00 að staðartíma. Ungmenni í Exarchia-hverfi nálægt höfuðborginni réðust á lögreglubíl með grjótkasti og eldsprengjum. Einn lögreglumannanna í bílnum hleypti af þremur skotum og særði unglingspiltinn til ólífis. Vitnum ber ekki saman um atburðarásina.

Pilturinn var fluttur á sjúkrahús með hraði en dó við komuna þangað. Fréttin af andláti hans olli mikilli reiði hundruða ungmenna. Þau réðust á lögreglubíla með grjótkasti og eldsprengjum. Lögreglan brást við með því að beita táragasi gegn múgnum, rýmingu sumra veitingahúsa á svæðinu og lokun gatna fyrir umferð.

Í yfirlýsingu lögreglu sem gefin var löngu eftir atvikið sem varð kveikjan að óeirðunum sagði m.a. að hópur þrjátíu ungmenna hafi ráðist að lögreglubílnum með grjótkasti í Exarchia-hverfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert