Kostar meira en 140 milljarða

Svona á nýi ísbrjóturinn að líta út.
Svona á nýi ísbrjóturinn að líta út. Tölvuteikning Wärtsilä

Stærsti ís­brjót­ur í heimi er nú á teikni­borðinu og reiknað með jóm­frúr­ferð hans árið 2014. Það eru tíu evr­ópu­lönd sem standa að smíði ís­brjóts­ins sem verður 65 þúsund tonn að stærð. Skipið á að heita Aur­ora Bor­eal­is, sem þýðir norður­ljós, og verður m.a. búið bort­urni.

Finnska skipa­smíðastöðin Wärtsilä og Al­fred We­gener stofn­un­in um heim­skauta- og haf­rann­sókn­ir kynntu áformin um smíði ís­brjóts­ins í Berlín síðastliðinn miðviku­dag. Skipið verður bylt­ing­ar­kennt, fjöl­nota ís­brjót­ur, djúp­hafs bor­skip og rann­sókn­ar­skip til heim­skaut­a­rann­sókna. Að verk­efn­inu standa 15 stofn­an­ir í tíu Evr­ópu­ríkj­um, þ.á.m. í Nor­egi og Rússlandi. Evr­ópu­sam­bandið hef­ur styrkt und­ir­bún­ing verk­efn­is­ins.

Risaís­brjót­ur­inn verður tvö­falt stærri en stærstu rúss­nesku ís­brjót­arn­ir, sam­kvæmt frétta­stofu græn­lenska út­varps­ins. Ætl­un­in er að nota hann til rann­sókna á norður­heims­skauts­svæðinu og á hann að geta farið allra sinna ferða þar án aðstoðar annarra ís­brjóta. Bort­urn­inn um borð mun gera kleift að bora á allt að fimm kíló­metra sjáv­ar­dýpi og að bora einn km niður í hafs­botn­inn. Þá verður skips­skrokk­ur­inn út­bú­inn þannig að hægt verður að kom­ast að sjón­um inn­an úr skip­inu. Vís­inda­menn og aðrir rann­sókn­ar­menn þurfa því ekki að fara upp á dekk við vinnu sína.

Finnska skipa­smíðastöðin Wärtsilä er nú að teikna ís­brjót­inn. Gangi áætl­un um fjár­mögn­un verk­efn­is­ins eft­ir er stefnt að því að smíð ís­brjóts­ins hefj­ist árið 2012 og að skipið verði til­búið í jóm­frúr­ferðina árið 2014. Áætlað er að smíði ís­brjóts­ins kosti 6,5 millj­arða danskra króna eða rúm­lega 141 millj­arð ís­lenskra króna.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert