Kröfu foreldra kínverskra barna hafnað

Sanlu þurrmjólkurduft var innkallað úr verslunum í Kína
Sanlu þurrmjólkurduft var innkallað úr verslunum í Kína Reuters

Kínverskur dómstóll hafnaði því í dag að taka fyrir lögsókn fjölda fjölskyldna gegn kínverskum mjólkurframleiðanda. Fóru fjölskyldurnar fram á 14 milljónir júana, um 230 milljónir króna, í skaðabætur vegna eitraðrar þurrmjólkur.

Fjöldi barna í Kína veiktist fyrr á árinu vegna neyslu á þurrmjólkinni. Meðal foreldra sem höfðuðu málið eru foreldrar tveggja barna sem létust í kjölfar neyslu á þurrmjólk sem framleidd var af Sanlu. Fyrirtækið er í eigu kínverska ríkisins.

Talið er að sex börn hafi látist og tæplega 300 þúsund hafi veikst eftir neyslu mjólkurvara sem melamíni hafði verið bætt í. Melamín er einkum notað til iðnaðarframleiðslu, svo sem við plastiðnað.

Þegar verjendur fjölskyldnanna ætluðu að leggja fram lögsóknina var þeim tilkynnt að ekki væri hægt að taka við henni þar sem stjórnvöld væru enn að rannsaka málið. Telja lögfræðingarnir að einungis sé um afsökun að ræða og að áfram verði þrýst á að samþykkt verði að taka lögsóknina fyrir.

Í síðustu greindu kínversk stjórnvöld frá því að sex börn hafi væntanlega látist vegna neyslu eitraðrar mjólkur en áður höfðu þau haldið því fram að rekja mætti þrjú dauðsföll barna til neyslu þurrmjólkur. 294 þúsund börn urðu að leita til læknis vegna vandræða við þvaglát en melamín getur leitt til nýrnaskemmda í börnum. Er þetta sex sinnum fleiri börn heldur en áður hafði verið tilkynnt um að hefðu veikst.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert